Gæludýraást

Til er lítið þorp í norðurhluta Namibíu sem ber nafnið Onendongo. Þorp þetta er sjaldan í fréttum, ja, ég man nú bara ekki eftir að hafa nokkurn tímann heyrt á það minnst í þau fimm og hálfa ár sem ég hef búið í landinu. En nú varð breyting á.

Þorpsbúar tóku nefnilega eftir nýrri gröf í nágrenni þorpsins. Á gröfinni var kross úr pálmalaufum, sem þykir óvenjulegt þar á bæ. Var mikið velt vöngum yfir hver væri jarðaður þarna, og auðvitað var spurt hvort lát þess sem þarna lægi hefði borið að með eðlilegum hætti.

Lögreglan var fengið með í spilið og eftir nokkurt þjark var ákveðið að grafa upp þetta lík til að fá botn í málið. Kom þá í ljós að einhver hafði grafið hundinn sinn og haft mikið fyrir að veita hundinum sómasamlega greftrun.

Þykir þetta mikið hneyksli og var þorpsbúum ekki skemmt.


Litlu börnin í Namibíu

Fyrir nokkru síðan var ég á fundaferð í norðurhluta Namibíu. Heimsóttum við ýmsa hópa frumbyggja.

Vakti athygli mína hversu mikið var af ungabörnum, líklega á aldrinum tveggja til sex mánaða. Stóðst ég ekki mátið og fékk að halda á einu barninu, sem er af Ovazemba ættbálkinum. Eins og alltaf vakti undrun að hvítur karlmaður væri eitthvað að stússast í kringum börn.

 Voru tvær myndir teknar af mér við þetta tækifæri.

SG1S2651a

SG1S2652a

 

Annars verður að segjast að horfur nýfæddra barna í Namibíu eru ekki alltof bjartar. Lífslíkur við fæðingu eru í kringum 48 ár og eru um þriðjungslíkur að nýfætt barn nái 65 ára aldri. Á Íslandi eru líkurnar 90 af hundraði.


Margt ber að varast

Nokkuð þurrkaástand ríkir hér í Namibíu núna, en lítið rigndi á síðasta regntímabili og hefur það leitt af sér að mörg vatnsból eru tóm. Ein afleiðing af þessu er að dýr eru meira á ferli að leita sér að drykkjarvatni.

Hefur nú ráðuneyti umhverfis- og ferðamála gefið út fílaviðvörun. Fílar drekka mikið vatn, þurfa svona 120-180 lítra á dag, og nú eru þeir mikið á ferðinni. Því hefur fólki í Kaprívísýslu, sér í lagi, verið ráðlagt að halda sig innan dyra eftir að fer að skyggja.

Áætlað er að í Namibíu séu milli 23 og 25 þúsund fílar, en 2004 voru um 16 þúsund fílar í landinu, þ.a. aukningin er mikil. Því hefur fjölgað mikið tilvikum þar sem fílar ráðast á fólk. Fyrir um tveimur vikum tróðst fíll yfir konu nokkra og lést hún í kjölfarið. Konugreyið var víst á leið heim úr kirkju ásamt manni sínum og átti sér einskis ills von.

Maður einn var á leið hjólandi til vinnu snemma morguns þegar hann rakst á fíl, sem reiddist svo að hann kastaði manninum til hliðar. Afleiðingarnar voru heilahristingur, en lífi hélt þó maðurinn.

Fleiri svona sögur heyrast. Síðan er daglegt brauð að fílar skemmi hús, girðingar, vatnsdælur og fleira þar fram eftir götunum.

Í næstu viku mun ráðherra umhverfis- og ferðamála senda frá sér tilkynningu vegna fílavandans.

Leyfi ykkur að fylgjast með.

Hvers virði er farsíminn?

Fyrir átta dögum þá tók ungur maður sig til hér í Windhoekborg og hrifsaði farsíma af 16 ára stúlku og hljóp á braut. Sá líklega fyrir sér auðveldan ránsfeng.

 Þvílík mistök.

Töluverður hópur fólks var þarna á ferli og tók fjöldi þeirra sig til og hófu að elta þjófinn uppi. Eltingarleikurinn barst meira en kílómetra í burtu og þegar þjófurinn kom að stóru uppistöðulóni grýtti hann símanum frá sér, reif sig úr bolnum og stakk sér til sunds.

Sást hvorki tangur né tetur til hans, þó lengi væri beðið.

Nú, átta dögum síðar, kom í ljós að þjófurinn var ekki syndur. Lík hans rak nefnilega að landi í gær, nær alveg á sama stað og hann steypti sér út í lónið.

Hversu mikils virði er farsíminn?


Hversu trúverðug er svona könnun?

Við Íslendingar, eða nær 85% okkar, viljum ekki kaupa útlenda mjólk, skv. þessari frétt Morgunblaðsins. Gott mál fyrir okkar bændur, sem hljóta að vera að gera góða hluti. Hversu mörg framleiðslufyrirtækja okkar fá þvílíka traustsyfirlýsingu frá viðskiptavinum sínum?

Í kjölfarið hlýtur spurningin þó að vakna, er nokkur þörf á því að vernda innlenda mjólkurframleiðslu?

Skyldu ekki 85% okkar duga til að halda uppi mjólkurframleiðslu í landinu? Ef svo er, þá mætti í það minnsta bæta hag hinna 15 prósentanna sem greinilega eru til í að kaupa útlenda mjólk. Líklega vill þessi litli hópur kaupa þá mjólk vegna þess að hann trúir því að sú mjólk verði ódýrari, og þar með aukist kaupmáttur, þótt ekki nema lítið sé.

En hvernig var fólk spurt? Var gefið eitthvað í skyn um verð útlendu mjólkurinnar í samanburði við verð hinnar íslensku? Hvað með gæðin? Eða var fólki í sjálfsvald sett hvernig það mæti þessa þætti?

Ef útlenda mjólkin væri 20% ódýrari, fengist sama niðurstaða? En ef hún væri 50% ódýrari?

Einhvern veginn grunar mig að ef útlenda mjólkin væri merkjanlega ódýrari, þá keyptu hana fleiri en 15%.

Þessi frétt vekur eiginlega meiri spurningar um aðferðafræði könnunarinnar, heldur en nokkuð annað. Og þar með hversu mikið mark er takandi á henni. Meðal fræðimanna er nokkuð deilt um marktækni skoðanakannana þar sem svarendur þurfa ekki að láta athafnir fylgja orðum. Sér í lagi, þykir vafasamt að taka of mikið mark á könnunum þar sem ákveðinn valkostur hefur einhvern réttlætisblæ fram yfir aðra. Við Íslendingar erum jú mjög hreyknir af okkar mjólkurvörum. Þarf ekki annað en benda á stolt okkar yfir útlendingum sem, fréttum samkvæmt, halda varla vatni yfir skyrinu okkar. Þ.a. sá sem svarar í símann og er nafngreindur af starfsfólki Gallup, er líklegri til að svara „rétt" og hugsa sem svo: Ekki get ég látið spyrjast út um mig að ég kaupi ekki íslenskt...

Ekki taka þessum niðurstöðum því of bókstaflega.


mbl.is Langflestir vilja íslensku mjólkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumalandið - fræðirit eða kennslugagn?

Sá litla frétt á mbl.is áðan, sem hófst svo: „Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, kynnti í gær lista yfir þau tíu fræðirit sem til greina koma við veitingu Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2006.“

Allt í lagi með það í sjálfu sér. Ágætis hvatning fyrir þá sem taka að sér að skrifa fræðirit og kennslugögn að eiga möguleika á að vinna tre-kvart úr milljón. En það sem vakti athygli mína að Draumaland Andra Snæs var þarna á meðal.

Einhvern tímann í fyrra gafst mér færi á að lesa þessa bók og þótti hún að mörgu leyti skemmtileg lesning. Sérstaklega fyrstu kaflarnir, þar sem höfundur velti fyrir sér landbúnaðarmálum á okkar blessaða fróni.

Hins vegar get ég engan veginn sæst á það að þessi bók teljist fræðirit. Enn síður kennslugagn. Þessi bók eru hugleiðingar höfundarins og stenst engar kröfur um fræðirit. Sú staðreynd að bók seljist vel, fjalli um eitt af helstu ágreiningsefnum samtímans, sé mikið í umræðunni og höfundur haldi fyrirlestra um efni hennar vítt og breytt breytir því ekki. 


Ábyrgð fyrirtækja og íslenskukennsla útlendinga

Fyrir nokkru ákváðu stjórnvöld að leggja meira fjármagn í íslenskukennslu fyrir útlendinga. Vonandi skilar það sér í betri og víðtækari kennslu en áður. En átak stjórnvalda dugar ekki eitt og sér.

Markmið okkar Íslendinga hlýtur að vera að allir þeir sem starfa hér á landi til lengri tíma geti bjargað sér á íslenskri tungu. Til þess þarf samstillt átak, ekki einungis stjórnvalda heldur einnig þeirra fyrirtækja sem ráða útlendinga til starfa. Í umræðunni um þessi mál heyrist oft sú gagnrýni útlendinganna að vinnuálag sé það mikið að engin lifandi leið sé að ætla sér að sækja námskeið í lok vinnudags.

Er þetta röksemd sem verður að virða og taka tillit til.

Úr þessum vanda er engin leið nema að fyrirtækin okkar taki sig á. Peningar og fögur orð stjórnvalda duga bara ekki. Til að tryggja hagsmuni þeirra útlendinga sem koma til starfa á okkar landi elds og ísa þá verður hreinlega að skikka fyrirtæki til að hleypa þeim í klukkutíma íslenskukennslu á hverjum degi fyrstu sex mánuði veru þeirra hér. Fjársektir þurfa að liggja við ef misbrestur á þessu verður.

Fyrirtæki munu kvarta yfir kostnaði og töpuðum vinnustundum, annað væri óeðlilegt. En stjórnendum þeirra verður að benda á að þeir vilja ráða fólkið og verða því að taka á sig þá ábyrgð og þær skyldur sem því fylgja.

Því miður þarf stundum að pína okkur í samstillt átak.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.


Krónunni allt!

Í Fréttablaðinu í dag leggur Jón Steinsson, hagfræðinemi við Harvard háskólann, orð í belg. Öllum er frjálst að nota evru, segir hann.

Oft hefur verið hamrað á því að ef Ísland vill taka upp evru, þá þurfi fyrst að ganga í Evrópusambandið. Er það fjarri lagi. Íslensk stjórnvöld gætu einfaldlega ákveðið að krónan hafi runnið sitt skeið og skipt öllum krónubirgðum landsmanna út fyrir evrur. Bara sisona. Við hefðum þá auðvitað engin áhrif á peningamálastjórnun seðlabanka Evrópu. En, í fullri hreinskilni, hversu mikið yrði farið eftir sjónarmiðum 300 þúsund manna úti í ballarhafi við vaxtaákvarðanir þess mæta seðlabanka? Við hefðum ósköp lítið vægi þar, ef nokkurt.

En ekki þarf stjórnvöld til að taka upp evru. Eins og Jón bendir á geta íslensk fyrirtæki og einstaklingar einfaldlega ákveðið að nota evrur í sínum viðskiptum. Verslanir gætu verðmerkt vörur sínar í evrum og tekið evrur fyrir. Laun mætti greiða út í evrum o.s.frv. Einkum beinir Jón sjónum sínum að bönkunum og bendir á hvernig þeir gætu auðveldað upptökuna.

Það er ekkert einsdæmi að þjóð noti gjaldmiðil annars lands og gefi ekki út sinn eigin. Flestar þjóðir sem gera þetta eru fámennar, jafnvel á mælikvarða Íslendinga, en þó eru nokkrar milljónaþjóðir sem þetta gera. Má þar nefna Ekvador, með á 14. milljón íbúa, en þar er bandaríkjadalur hinn daglegi gjaldmiðill. Þessar þjóðir hafa iðulega farið í gegnum slæmt efnahagsástand áður en ákvörðunin var tekið að kasta gjaldmiðlinum í ruslakörfuna. En af hverju mætti Ísland ekki verða ein af þeim undantekningum sem tekur upp traustari gjaldmiðil en heimableðilinn áður en allt fer í bál og brand?

Ímyndið ykkur að fá launin ykkar í evrum og taka síðan húsnæðislán í sama gjaldmiðli. Engin gengisáhætta þar. Miðað við vexti íslenskra banka um þessar mundir má áætla að evrurnar mætti fá á 6,5% vöxtum, sjálfsagt lægri, en við skulum hafa vaðið fyrir neðan okkur. Lánið væri óverðtryggt að sjálfsögðu. Óverðtryggt lán í íslenskum krónum. Ja, kannski 16% vextir. Ársvextir af 10 milljón króna láni væru 650.000 kr. af evruláninu, en 1,6 milljónir af krónuláninu! Milljón á ári fyrir að fá að nota krónur...

Það munar um minna.

Eru allar íslenskar fjölskyldur, sem standa í húsnæðiskaupum, tilbúnar að borga milljón á ári til að Ísland geti notað stýrivexti sem hagstjórnartæki?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband