Íslendingar snjallari en aðrir í efnahagsmálum?

Í yfirlitsskýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf nýlega út [1] kemur fram að flestar þjóðir heims eru um þessar mundir að auka ríkisútgjöld sín og margar hverjar að draga úr skattheimtu. Er þetta afleiðing af fjármálakreppunni sem gengur yfir heiminn. Auðvitað þýðir þetta aukinn hallarekstur, en þjóðir þessar meta sem svo að aðgerðir af þessu tagi séu nauðsynlegar til að rétta þjóðarskúturnar af.

Í skýrslunni eru skoðaðar ýmsar aðgerðir í ríkisfjármálum svokallaðs G-20 hóps [2] næstu árin. Hópur þessi er fjölbreytilegur og spannar töluverða flóru. M.a. kemur fram í skýrslunni (tafla 3.5, bls. 17) að 17 af tuttugu þjóðum hafa tilkynnt um aukna fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, annað hvort með beinum hætti eða með tekjutilfærslum til sveitarfélaga. Nítján þjóðir munu setja meiri peninga í „öryggisnet“ þ.e. atvinnuleysisbætur o.þ.h. Þrettán þjóðir auka stuðning við byggingariðnað. Sautján þjóðanna hafa ákveðið að auka útgjöld á ýmsum sviðum, til viðbótar við það sem áður var nefnt. Í flestum tilvikum er um tímabundnar aðgerðir að ræða. Þær eiga því að ganga til baka að einhverjum árum liðnum.

Fjórtán þjóðir ætla að lækka tekjuskatt einstaklinga og tólf þjóðir ætla að lækka óbeina skatta á einn eða annan hátt.  Ellefu þjóðir bæta hag fyrirtækja með lækkun fyrirtækjaskatta eða breytingum á skattareglum til góða fyrirtækja.

Þetta er í þvílíku ósamræmi við áætlanir íslenska ríkisins að ótrúlegt má telja. Fjármálaráðuneytið gefur út ritröð sem nefnist Þjóðarbúskapurinn. Í vorskýrslu 2009 kemur ýmislegt fram um ríkisfjármál Íslendinga [3]. Kemur fram á bls. 22 að gert sé ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera muni dragast saman um 40,4% að raungildi á yfirstandandi ári, 15% árið 2010 og 2,3% árið þar á eftir. Opinber fjárfesting nær m.a. til bygginga- og mannvirkjaframkvæmda sem og kaupa á véla- og tækjabúnaði. Í þjóðarbúskapnum segir reyndar að stjórnvöld hafi í undirbúningi mannaflsfrekar samgönguframkvæmdir, en miðað við ofangreindar tölur þá eru þær framkvæmdir varla upp á marga fiska.

Ekki þarf að minna fólk á aðgerðir í skattamálum, aukið bensíngjald, hækkað tekjuskatthlutfall, bæði launa- og fjármagnstekjuskatt.

Hverju veldur þessi munur? Hvað vita Íslendingar sem aðrir vita ekki?

(1) International Monetary Fund. 2009. Fiscal Implications of the Global Economic and Financial Crisis. SPN/09/13. 9. júní.

(2) G-20 hópurinn samanstendur af Argentínu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi, Frakklandi, Indlandi, Indónesíu, Ítalíu, Japan, Kanada, Kína, Kóreu, Mexíkó, Rússlandi, Sádí Arabíu, Spáni, Suður Afríku, Tyrklandi og Þýskalandi.

(3) Fjármálaráðuneytið. 2009. Þjóðarbúskapurinn: Þjóðhagsspá fyrir 2009-2014. Vorskýrsla, 12. maí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæll.

Munar ekki þremur bókstöfum á okkur og hinum.

IMF

kv.

Ólafur Eiríksson, 23.6.2009 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband