Krónunni allt!

Í Fréttablaðinu í dag leggur Jón Steinsson, hagfræðinemi við Harvard háskólann, orð í belg. Öllum er frjálst að nota evru, segir hann.

Oft hefur verið hamrað á því að ef Ísland vill taka upp evru, þá þurfi fyrst að ganga í Evrópusambandið. Er það fjarri lagi. Íslensk stjórnvöld gætu einfaldlega ákveðið að krónan hafi runnið sitt skeið og skipt öllum krónubirgðum landsmanna út fyrir evrur. Bara sisona. Við hefðum þá auðvitað engin áhrif á peningamálastjórnun seðlabanka Evrópu. En, í fullri hreinskilni, hversu mikið yrði farið eftir sjónarmiðum 300 þúsund manna úti í ballarhafi við vaxtaákvarðanir þess mæta seðlabanka? Við hefðum ósköp lítið vægi þar, ef nokkurt.

En ekki þarf stjórnvöld til að taka upp evru. Eins og Jón bendir á geta íslensk fyrirtæki og einstaklingar einfaldlega ákveðið að nota evrur í sínum viðskiptum. Verslanir gætu verðmerkt vörur sínar í evrum og tekið evrur fyrir. Laun mætti greiða út í evrum o.s.frv. Einkum beinir Jón sjónum sínum að bönkunum og bendir á hvernig þeir gætu auðveldað upptökuna.

Það er ekkert einsdæmi að þjóð noti gjaldmiðil annars lands og gefi ekki út sinn eigin. Flestar þjóðir sem gera þetta eru fámennar, jafnvel á mælikvarða Íslendinga, en þó eru nokkrar milljónaþjóðir sem þetta gera. Má þar nefna Ekvador, með á 14. milljón íbúa, en þar er bandaríkjadalur hinn daglegi gjaldmiðill. Þessar þjóðir hafa iðulega farið í gegnum slæmt efnahagsástand áður en ákvörðunin var tekið að kasta gjaldmiðlinum í ruslakörfuna. En af hverju mætti Ísland ekki verða ein af þeim undantekningum sem tekur upp traustari gjaldmiðil en heimableðilinn áður en allt fer í bál og brand?

Ímyndið ykkur að fá launin ykkar í evrum og taka síðan húsnæðislán í sama gjaldmiðli. Engin gengisáhætta þar. Miðað við vexti íslenskra banka um þessar mundir má áætla að evrurnar mætti fá á 6,5% vöxtum, sjálfsagt lægri, en við skulum hafa vaðið fyrir neðan okkur. Lánið væri óverðtryggt að sjálfsögðu. Óverðtryggt lán í íslenskum krónum. Ja, kannski 16% vextir. Ársvextir af 10 milljón króna láni væru 650.000 kr. af evruláninu, en 1,6 milljónir af krónuláninu! Milljón á ári fyrir að fá að nota krónur...

Það munar um minna.

Eru allar íslenskar fjölskyldur, sem standa í húsnæðiskaupum, tilbúnar að borga milljón á ári til að Ísland geti notað stýrivexti sem hagstjórnartæki?


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband