Tekjulindin makríll

Í núverandi árferði eru fáir ljósir punktar í atvinnulífi landsmanna. Þó eru undantekningar t.d. veiðar á makríl. Við Íslendingar höfum haft takmarkaðan aðgang að þeim fiskistofni, en á þessu ári setti sjávarútvegsráðuneytið 112.000 lestir sem hámarksaflaviðmið. Góðar fréttir, enda seljast afurðirnar til útlanda og afla okkur dýrmæts gjaldeyris.

Jú, góðar fréttir, en miklu betri gætu þær þó verið. Skv. lítilli frétt á Vísi.is 10. júlí sl. mætti meira en tvöfalda verðmæti makrílsaflans. Haft er eftir norskum og færeyskum heimildum að makríll sem veiddur er til bræðslu seljist fyrir 70 milljónir króna hverjar þúsund lestir úr sjó. Sama magn af makríl úr sjó til manneldis selst hins vegar á 150 milljónir króna. Ég hef engar ástæður til að rengja þessar tölur og ímynda mér að þær séu a.m.k. nærri lagi. Gefum okkur að þær séu réttar.

Sjálfsagt er óraunhæft að reikna með að allur makrílaflinn nýtist til manneldis. Til að hafa vaðið fyrir neðan mig, geri ég ráð fyrir að hægt sé að nýta um tvo-þriðju hluta til þess brúks. Segjum 75.000 lestir. Fyrir þau fengjust þá 11 milljarðar og einum fjórðungi betur. Fyrir þær 37.000 lestir sem eftir standa og fara í bræðslu fengist ríflega tveir og hálfur milljarður. Samtals 13 og þrír-fjórðu milljarðar. Ef, hins vegar, öllum aflanum er landað til bræðslu þá fást einungis 7,8 milljarðar. Þjóðarbúið tapar greinilega töluverðum gjaldeyristekjum. Ekki undir sex milljörðum króna. Sex milljarðar! Ja-hérna, eitthvað mætti gera fyrir þann pening.

Hvernig má þetta vera? Hvernig getum við sóað verðmætum á þennan hátt? Væri ekki ágætt ef hægt væri að ná nokkrum af þessum töpuðu milljörðum í ríkiskassann? Ætli öllum landmönnum þætti ekki gott ef það væri hægt?

En kíkjum fyrst á ástæður sóunarinnar. Sjávarútvegsráðuneytið veitti útgerðum leyfi til makrílveiða og setti hámarksaflaviðmið 112 þúsund lestir. Sáralítil veiðireynsla er til staðar og því var engum kvótum úthlutað. Lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands kveða nefnilega á um að miða eigi við veiðireynslu þegar kvótum er úthlutað. Bestu þrjú veiðitímabil af síðustu sex. Þar sem veiðireynslan er metin of lítil til úthlutunar, þá var öllum gefinn laus taumurinn.

Við Háskóla Íslands er kennt námskeið sem nefnist fiskihagfræði. Sjálfsagt eru mismunandi skoðanir á þeirri fræðigrein. Ég er þó handviss um að ef ráðuneytið hefði leitað ráða hjá nemendum sem hafa lokið þessu námskeiði, þá hefði því verið sagt að hver útgerð myndi setja allt á fullt til að veiða meira en aðrar útgerðir. Nákvæmlega eins og gerðist. Ástæðan er auðvitað að safna sér meiri veiðireynslu en aðrir og þar með fá sem mestan kvóta loksins þegar honum verður úthlutað. Þessi hegðun er ekki séríslensk að neinu leyti. Mörg dæmi eru um hana frá flestum heimshlutum en þetta er angi af hinum svonefnda sameignarvanda. Sá vandi kemur iðulega fram þegar auðlind er í sameign margra, en þá sér enginn einstaklingur hag í að takmarka sókn sína í auðlindina þótt öllum kæmi betur ef menn héldu aftur af sér.

Um þessar mundir er leitað allra leiða til að spara í ríkisrekstri og finna nýjar tekjulindir fyrir hið opinbera. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að afla töluverðra tekna af makrílveiðunum. Ein einföld aðferð sem hægt er að nota er að bjóða upp makrílkvóta. Einfaldlega leyfa útgerðum að gera tilboð í kvóta. Þeir sem bjóða best fá að veiða. Útgerðir reyndu þá að fá sem mest fyrir kvótann sinn og við sæjum allt aðra hegðun á makrílmiðunum. Útgerðir gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að fá sem mestar tekjur, gjaldeyristekjur, fyrir aflann sinn. Kostnaði yrði haldið niðri sem frekast væri unnt. Hærri tekjur, lægri kostnaður og þar með meiri hagnaður. Ef tölur þær sem nefndar voru í upphafi greinarinnar eru eitthvað nálægt því að vera réttar, þá er augljóst að mikið svigrúm er til að auka tekjur af veiðunum. Allir ættu að vera ánægðir. Stjórnvöld hafa nýja tekjulind og útgerðir auka hagnað. Auðvitað þarf að útfæra hvernig uppboðið skal fara fram. T.d. þætti líklega eðlilegt að setja hámark á kvótahlutfall einstakrar útgerðar. Útfærslan er auðvitað einungis framkvæmdaratriði og ætti ekki að skapa vandamál. Nóg er af uppboðum, sem læra má af, á alls konar hlutum um allan heim á hverjum einasta degi.

Líklega þyrfti lagabreytingu til að ná þessu fram. Það ætti ekki að vefjast fyrir Alþingi. Sérstök lög voru sett um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, þar sem fyrsta grein tiltekur að kvótaúthlutunarákvæði áðurnefndra laga um veiðar utan lögsögu Íslands gildi ekki í þeim veiðum. Sama má gera um makrílveiðar.

Á þessum síðustu og verstu tímum er hreint glapræði og vítavert gáleysi að nýta ekki allar mögulegar tekjulindir, sér í lagi þegar ný tekjulind leiðir til hærri tekna öllum til handa.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu, sunnudaginn 13. september 2009 á bls. 37)


Íslendingar snjallari en aðrir í efnahagsmálum?

Í yfirlitsskýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf nýlega út [1] kemur fram að flestar þjóðir heims eru um þessar mundir að auka ríkisútgjöld sín og margar hverjar að draga úr skattheimtu. Er þetta afleiðing af fjármálakreppunni sem gengur yfir heiminn. Auðvitað þýðir þetta aukinn hallarekstur, en þjóðir þessar meta sem svo að aðgerðir af þessu tagi séu nauðsynlegar til að rétta þjóðarskúturnar af.

Í skýrslunni eru skoðaðar ýmsar aðgerðir í ríkisfjármálum svokallaðs G-20 hóps [2] næstu árin. Hópur þessi er fjölbreytilegur og spannar töluverða flóru. M.a. kemur fram í skýrslunni (tafla 3.5, bls. 17) að 17 af tuttugu þjóðum hafa tilkynnt um aukna fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, annað hvort með beinum hætti eða með tekjutilfærslum til sveitarfélaga. Nítján þjóðir munu setja meiri peninga í „öryggisnet“ þ.e. atvinnuleysisbætur o.þ.h. Þrettán þjóðir auka stuðning við byggingariðnað. Sautján þjóðanna hafa ákveðið að auka útgjöld á ýmsum sviðum, til viðbótar við það sem áður var nefnt. Í flestum tilvikum er um tímabundnar aðgerðir að ræða. Þær eiga því að ganga til baka að einhverjum árum liðnum.

Fjórtán þjóðir ætla að lækka tekjuskatt einstaklinga og tólf þjóðir ætla að lækka óbeina skatta á einn eða annan hátt.  Ellefu þjóðir bæta hag fyrirtækja með lækkun fyrirtækjaskatta eða breytingum á skattareglum til góða fyrirtækja.

Þetta er í þvílíku ósamræmi við áætlanir íslenska ríkisins að ótrúlegt má telja. Fjármálaráðuneytið gefur út ritröð sem nefnist Þjóðarbúskapurinn. Í vorskýrslu 2009 kemur ýmislegt fram um ríkisfjármál Íslendinga [3]. Kemur fram á bls. 22 að gert sé ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera muni dragast saman um 40,4% að raungildi á yfirstandandi ári, 15% árið 2010 og 2,3% árið þar á eftir. Opinber fjárfesting nær m.a. til bygginga- og mannvirkjaframkvæmda sem og kaupa á véla- og tækjabúnaði. Í þjóðarbúskapnum segir reyndar að stjórnvöld hafi í undirbúningi mannaflsfrekar samgönguframkvæmdir, en miðað við ofangreindar tölur þá eru þær framkvæmdir varla upp á marga fiska.

Ekki þarf að minna fólk á aðgerðir í skattamálum, aukið bensíngjald, hækkað tekjuskatthlutfall, bæði launa- og fjármagnstekjuskatt.

Hverju veldur þessi munur? Hvað vita Íslendingar sem aðrir vita ekki?

(1) International Monetary Fund. 2009. Fiscal Implications of the Global Economic and Financial Crisis. SPN/09/13. 9. júní.

(2) G-20 hópurinn samanstendur af Argentínu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi, Frakklandi, Indlandi, Indónesíu, Ítalíu, Japan, Kanada, Kína, Kóreu, Mexíkó, Rússlandi, Sádí Arabíu, Spáni, Suður Afríku, Tyrklandi og Þýskalandi.

(3) Fjármálaráðuneytið. 2009. Þjóðarbúskapurinn: Þjóðhagsspá fyrir 2009-2014. Vorskýrsla, 12. maí.


Framkvæmd fylgir frami og gæfa

Hvernig má skapa atvinnu? Hvernig ætlar núverandi ríkisstjórn að skapa þau 6.000 ársverk sem stefnt er að í ríkisstjórnarsáttmálanum? Hvernig komum við hinum títtnefndu hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik? Oft er fátt um svör er stórt er spurt, og virðist sú vera raunin þessa dagana. Einsýnt er að hjólin margfrægu eiga mjög erfitt með að komast af stað af sjálfsdáðum. Rafgeymirinn virðist hreinlega tómur og því þarf að gefa start. En hvernig gefum við hagkerfi start? Tvennt geta stjórnvöld gert. Tvennt sem stjórnvöld virðast ekki ætla að gera. Í það minnsta draga menn lappirnar.

Annars vegar þarf peninga inn í bankakerfið. Lánsfé þarf að vera til staðar til að koma fyrirtækjum yfir þann erfiða hjalla sem staðið er frammi fyrir. Í fjármálakrísum er peningainnspýting iðulega sú uppskrift sem beitt er. Ekki svo mjög gamalt dæmi er frá frændum vorum Svíum. Þegar kreppti að hjá þeim við upphaf tíunda áratugarins og bankar þar í landi höktu, þá komu stjórnvöld til hjálpar. Lögðu þau peninga inn í bankana gegn eignaraðild. Hversu mikla peninga var um að ræða? U.þ.b. 4% af landsframleiðslu Svíþjóðar á þeim tíma. Jafngildir tæplega 59 milljörðum króna íslenskra, miðað við okkar landsframleiðslu í fyrra. Ríkisvaldið hér hefur tekið alla banka yfir sem máli skipta. Eitthvað virðist hins vegar fara lítið fyrir endurfjármögnun þeirra og greinilegt að nýju bankarnir hafa ekki tök á því að stunda þau lánaviðskipti sem nauðsynleg eru. Stjórnvöld verða að setja peninga inn í bankakerfið.

Hins vegar þarf ríkið að verða framkvæmdaglaðara en í stefnir. Nú er nauðsyn. Ríkið má ekki hætta við framkvæmdir, heldur ætti auka þær. Eitt sinn fyrir mörgum árum vann ég sumarlangt með manni sem hóf sinn starfsferil á þriðja áratug síðustu aldar. Lýsti hann fyrir mér atvinnuástandinu þá. Hvernig menn stóðu í röðum þar sem einhverja vinnu var að fá. Óskuðu þeir þess að einhver myndi ekki mæta þann daginn þ.a. þeir kæmust að í staðinn. Jafnvel að einhver slasaðist. Mér þóttu þetta ótrúlegar lýsingar. „Hvernig leystist atvinnuleysið?“ spurði ég. „Herinn kom,“ var svarið. Með hernum fylgdu jú alls konar framkvæmir og fullt af störfum. Herinn þurfti margvíslegar vörur og þjónustu og atvinnulífið fór allt í einu að blómstra Atvinnuleysi hvarf og peningahirslur landsmanna fylltust. Reyndar var það svo að seinni heimstyrjöldin átti stóran þátt í að koma böndum á kreppuna miklu. Ekki ætla ég nú að mæla með því að Íslendingar fari í hernað. En, krepputímar eru ekki rétti tíminn til að draga skyndilega úr öllum framkvæmdum.

Hærri skattar og mikill samdráttur í ríkisútgjöldum draga úr framleiðslu og atvinnu. Þetta er svo augljóst að ég skammast mín næstum fyrir að skrifa það. Þessar aðgerðir, eins og núverandi ríkisstjórn ætlar að takast á hendur, dýpka kreppuna. Þær hjálpa ekki til. Ástandið verður verra en það er í dag. Af hverju stefna stjórnvöld að því að ná hallalausum ríkisbúskap árið 2013? Auðvitað er göfug hugsun að vilja ekki eyða um efni fram, en miðað við aðstæður er þetta svolítið eins og að kaupa kampavínið til að halda upp á Íslandsmeistaratitilinn þegar æfingatímibilið er að hefjast og allt mótið er eftir. Komum fyrst hjólunum af stað, náum okkur upp úr kreppunni og förum svo að vinna í að jafna út ríkisfjármálin. En verðum við ekki þá stórskuldug? Jú, vafalaust. En þannig er nú líf okkar flestra. Við tökum okkur lán fyrir húsnæði og eyðum ævinni í að borga af því láni. Í kreppu gengur ekki að pakka í vörn. Við verðum að sækja fram völlinn.

Því, framkvæmd fylgir frami og gæfa.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu, sunnudaginn 21. júní 2009 á bls. 32)


Volaður verður sá ei vinna má

Í landi því er ég bý er áætlað að 36% vinnufærra manna séu án atvinnu. Líklega er þetta vanmat. Atvinnuleysi ungmenna, 15-25 ára, sem ekki eru í skóla, er áætlað yfir 60%. Hvernig lýsir þetta sér? T.d. á þann hátt að mikið af fólki er ávallt á stefnulausri göngu um götur borga og bæja. Sest er á krárnar snemma dags og setið þar fram á kvöld. Börn flækjast um eftirlitslaus, og mörg hver mæta ekki í skóla. Meira en helmingur fjölskyldna er án föður. Vonleysi margra er algjört og leiðast þeir út í glæpastarfsemi. Í fangelsi færðu nefnilega mat og húsaskjól. Mikið atvinnuleysi grefur undan samfélagslegum gildum, því fólk sér ekki tilgang með nokkrum sköpuðum hlut. Stjórnvöld í landinu þar sem ég bý hafa til margra ára haft atvinnusköpun að forgangsmáli, en engu að síður er staðan svona.
 
Staðreyndin er nefnilega sú að störf tapast fjarska auðveldlega, en gríðarlega erfitt er að búa til ný. Störf má ekki spila með eins og peninga í fjárhættuspili. Við á Íslandi erum núna að upplifa starfatap líklega meira en nokkru sinni fyrr. Á innan við einu ári hefur fjöldi atvinnulausra áttfaldast, skv. Vinnumálastofnun. Segi og skrifa: áttfaldast! Hversu lengi verðum við að búa til ný störf í staðinn? Ábyggilega margfalt lengur en tók að tapa þeim.
 
Fjárhagslegir erfiðleikar vegna atvinnuleysis eru ekki aðhlátursefni. Afleiðingar tapaðra starfa eru, hins vegar, miklu meiri en fjárhagslegir. Sérstaklega þegar þvílíkur fjöldi starfa tapast sem raun ber vitni. Andlegu afleiðingarnar af langtímaatvinnuleysi eru í raun alvarlegri en fjárhagserfiðleikar. Ef lýsa á í einu orði, þá er atvinnuleysi mannskemmandi. Því ætti meginmarkmið stjórnvalda, hvar sem er í heimi, að vera að halda atvinnuleysi í lágmarki.
 
Atvinna verður ekki til á borðum stjórnmálamanna. Atvinna skapast í atvinnulífinu, hjá fyrirtækjum, og smitar út frá sér. Þegar eitt fyrirtæki eykur umsvif þá njóta önnur fyrirtæki góðs af og fjölga jafnvel fólki. Þannig hefst keðjuverkun.
 
Í dag er málum því miður þannig háttað á Íslandi að fyrirtækjum blæðir út. Starfsumhverfi þeirra er slíkt að stór hluti getur hreinlega ekki haldið áfram. Vextir þeir sem atvinnulífið stendur frammi fyrir eru til háborinnar skammar. Seðlabankinn heldur vöxtum uppi til að verja eitthvað sem enginn veit hvað er. Hvaða máli skiptir að tólf mánaða verðbólga var 11,6%? Ég endurtek: var. Það er núverandi og framtíðarverðbólga sem máli skiptir. Á ársgrundvelli er verðbólga síðustu þriggja mánaða 4%. Lítið bendir til að hún muni aukast á næstunni. Seðlabankinn tekur ekkert tillit til atvinnuástands í landinu. Í nýjustu skýrslu peningastefnunefndar er atvinnuleysi einu sinni nefnt: „...aukið atvinnuleysi [hefur] dregið úr verðbólguþrýstingi...“ Í maí-skýrslu sömu nefndar var ekki minnst orði á atvinnu. Líklega á þetta sinnuleysi um atvinnu rætur að rekja til aðferðafræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Því miður er eitt af einkennum þeirra landa þar sem hann kemur til aðstoðar að vextir eru keyrðir upp úr öllu valdi og atvinnuleysi eykst til muna. Mörg dæmi um það má tína til. Jú, segja sérfræðingarnir, atvinnuleysi er bara tímabundinn sársauki sem við gleymum til lengri tíma. Það grær áður en þú giftir þig, gætu þeir sagt.
 
En, við hin vitum að atvinnuleysi er mannskemmandi.
 
Seðlabanki Bandaríkjanna hefur þrjú markmið. Hámarka atvinnu, stuðla að stöðugu verðlagi og hófsömum langtímavöxtum. Hann þarf að horfa til allra þriggja markmiðanna og finna meðalveg, því iðulega stangast þau hvert á annað. Þegar alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi fyrir einhverjum árum að seðlabankinn bandaríski hefði eingöngu verðlagsmarkmið, þá sögðu Bandaríkjamenn pent nei, og héldu sínu striki. Þarna getum við lært af Bandaríkjunum.
 
Þótt Seðlabanki Íslands sé sjálfstæð stofnun, þá setur Alþingi lög um hann. Breytum núgildandi lögum á þann hátt að Seðlabankinn verði allra landsmanna og hafi ekki eingöngu verðlagsmarkmið, heldur stuðli einnig að hámörkun atvinnu.
 
Því, volaður verður sá ei vinna má.

(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 15. júní 2009 á bls. 17)


Namibíska gjaldmiðlaleiðin

Árið 1990 hlaut Suðvestur-Afríka sjálfstæði frá Suður Afríku og nefndist eftir það Namibía. Namibíumönnum langaði í sinn eigin gjaldmiðil. Fannst ómögulegt að nota randið, gjaldmiðil nýlendukúgaranna. Sjálfsagt langaði stjórnvöld líka í myntsláttuhagnað. En fyrst og fremst, sýnist mér, var um að ræða sjálfstæðisvitund sem krafðist eigin gjaldmiðils.

En hver tæki splunkunýjan gjaldmiðil frá splunkunýju ríki, í ofanálag afrísku ríki, alvarlega? Trúverðugleiki er orð sem við Íslendingar heyrum oft þessa dagana. Hvaða trúverðugleika hefði namibískur dalur?

Namibíumenn lögðu höfuð í bleyti og fundu lausn. Í september 1993 þá hófu þeir að prenta sinn eigin gjaldmiðil. En, ákváðu að randið yrði einnig lögeyrir í Namibíu. Þ.a. skv. lögum skiptir engu máli hvort greitt er með namibískum dölum eða s-afrískum röndum í verslunum. Fyrirtæki geta þarafleiðandi gert upp í hvorum gjaldmiðli sem er. Ég get gengið inn í bankann minn hér, tekið út 1.000 namibíska dali og beðið um að fá rönd, ef ég vil frekar en dali.

Skv. lögum er gengi namibíska dalsins fast við s-afríska randið, einn dalur á móti einu randi. Til að tryggja þetta enn frekar eru Namibíumenn meðlimir í sameiginlegu myntsvæði í sunnanverðri Afríku ásamt Lesóto, Svasílandi og S-Afríku þar sem jafngengis er krafist.

Og hvernig hefur þetta svo gengið?

Yfirleitt ágætlega. Mikil viðskipti eru milli Namibíu og S-Afríku og gengisstefnan skapar öryggi í þeim viðskiptum. Hins vegar eru hagkerfi landanna ólík að mörgu leyti. T.d. streymdu erlendir fjárfestar til S-Afríku 2004 og 2005, með mikið af bandaríkjadölum og evrum og keyptu rönd fyrir. Styrktist þar með gengi randsins og namibíski dalurinn fylgdi á eftir. Namibía fékk hins vegar sáralítið af þessari erlendu fjárfestingu. Namibísk útflutningsfyrirtæki fengu minna fyrir útflutning sinn og lentu mörg hver í vandræðum. Nú hins vegar hafa fjárfestar verið að losa sig við röndin sín og þá veikist randið og namibíski dalurinn fylgir með.

Ef á heildina er litið hefur namibíska kerfið dugað ágætlega. Namibía á sinn eigin gjaldmiðil, sem skiptir stjórnmálamenn máli. Sýnir sjálfstæði landsins. Einhver myntsláttuhagnaður fæst. Það helsta sem seðlabankinn gerir er að fylgja eftir vaxtabreytingum í S-Afríku. Hann hefur ósköp lítið svigrúm til nokkurs annars. Síðan safnar bankinn hagtölum.

Nokkur ótti er við fjármagnsflutninga úr landi. Því eru ýmsar hömlur settar á gjaldeyrisviðskipti. Reynt er að feta hinn gullna meðalveg, að lokka fjármagn til landsins sem nota á til uppbyggingar, en forðast spákaupmenn.

Hvort leið af þessu tagi gæti virkað á Íslandi skal ég ekki segja. Hins vegar er einn valkostur í núverandi stöðu að festa gengið öðrum gjaldmiðli. Nauðsynlegt er að skoða hvernig aðrar þjóðir framkvæma festingu af þessu tagi. Ef taka á upp nýjan gjaldmiðil væri óðs manns æði að gera það án þess að hafa fest krónuna við þann gjaldmiðil í einhvern tíma áður en skrefið er stigið til fulls.


Dreifðir eftirlitskraftar?

Hef aðeins skoðað umræðuna um sameiningu fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Finnst röksemdafærslan skrýtin. T.d. er sagt að sé „...betra að hafa kraftana sameinaða...” og einnig er „faglegt traust” nefnt. En má ekki líka segja að betur sjá augu en auga? Eftirlit snýst jú um að koma auga á eitthvað sem betur má fara. 

Ef lög um opinbert eftilit með fjármálastarfsemi (lög nr. 87/1998) eru skoðuð, þá kemur fram að fjármálaeftirlitið eigi að halda reglulega samráðsfundi. Hvað skyldu menn ræða þar?

Einnig stendur í lögunum að fjármálaeftirlitið eigi að gefa viðskiptaráðherra skýrslu á hverju ári og síðan kynni ráðherra hana fyrir Alþingi. Þar með hefur Alþingi möguleika á að gagnrýna og skoða hvað eftirlitið er að gera. Hversu gagnrýnið hefur Alþingi verið?

Hvernig er með Seðlabankann? Alþingi kýs sjö manna bankaráð. Einhverjir alþingismenn hafa setið þar. Á þetta fólk ekki að benda á ef eitthvað virðist ekki í lagi? Bankastjórar eiga að upplýsa bankaráð um mál sem eru í gangi.

Myndi eitthvað breytast ef öllu yrði hrúgað inn í Seðlabankann?

Varla.

Er ekki bara verið að leiða huga fólks frá því sem máli skiptir 


Evruna strax?

Horfði á Kastljós áðan. Jú, jú, í Namibíu er hægt að horfa á Kastljós. Undur tölvutækninnar gerir það kleyft. Þarna voru Geir Zoëga og Ólafur Ísleifsson í viðtali vegna greinar sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn var. Valmöguleikar er fyrir hendi í gengismálum, nefnist greinin. Lítið mál er skv. greininni að taka upp evru einhliða. Á Vísi.is sé ég rétt í þessu að annar höfunda var í Íslandi í dag áðan og talar um að rúm vika dugi til að taka upp evruna einhliða.

Líklega er þetta rétt, tæknilega séð.

Að ýmsu þarf þó að huga. Þótt ég sé þeirrar skoðunar að krónan sé okkur fjötur um fót, þá má ekki skera á reipið svo ákaft að skerist á slagæð í leiðinni. Kapp er best með forsjá, þótt okkur Íslendingum eigi til að gleyma því. Í greininni í Fréttablaðinu er sagt að „... skipt [yrði] yfir í hina nýju mynt á föstu gengi.“ Fyrir almenning verður þetta „fasta gengi“ algert lykilatriði. Hvaða fasta gengi yrði notað? Ja, það er nú ekki tekið skýrt fram, heldur segir að „Fast gengi var ákveðið út frá því að það væri hagstætt framleiðslu og útflutningsgreinum.“

Það var nefnilega það.

Skoðum nokkur dæmi. Skv. Seðlabanka Íslands kostaði ein evra 104 kr. í byrjun mars. Fyrri hluta ágúst þurfti að greiða 122 kr. fyrir hverja evru. Í dag, 10. nóvember, kostaði evran hins vegar 166 krónur. Verð evru í dag er því u.þ.b. 60 hundraðshlutum hærra en í mars. Ef þú ættir 30 milljónir króna í sparifé, þá gæfi gengi marsmánaðar þér 288 þúsund evrur, en gengi dagsins í dag einungis 180 þúsund evrur. Þeir sem eiga sparifé vilja að sjálfsögðu fyrri kostinn. Hins vegar ef þú skuldar 30 milljónir, þá viltu seinni kostinn. Þó ber að gæta þess að launin munu verða lægri í evrum talið ef gengi dagsins í dag er notað, þ.a. skuldarinn situr nokkurn veginn í sömu súpunni og áður.

Hvaða gengi er notað skiptir miklu máli því það hefur áhrif á kaupmátt okkar erlendis. Hægt er að fá nýjan bíl í Evrópu á 25 þúsund evrur og þá skiptir engu máli á hvaða verði Íslendingar keyptu evruna. Augaleið gefur að við myntbreytingu skiptir okkur verð evrunnar í krónum meginmáli.

Annað dæmi. Sá sem hefur í dag 250.000 kr. mánaðarlaun fengi 1.506 evrur á mánuði ef 166 krónur gefa eina evru. Ef evrunni væri hins vegar skipt fyrir 104 krónur, þá verða mánaðarlaunin 2.404 evrur. Hvort skyldi vera hagstæðara fyrir frí á Spáni?

Að breyta úr krónum í evrur er ekki eins og að skera núll af krónunni. Á þessu er grundvallarmunur. Við upphaf níunda áratugarins voru tvö núll skorin af krónunni. Hafði það engin áhrif á stöðu okkar gagnvart útlöndum. Fyrir 10 nýkrónur fékkst sami fjöldi þýskra marka og fyrir 1.000 gamlar krónur. Ef þú hafðir efni á að kaupa þér bíl í Þýskalandi fyrir núllaniðurskurð, þá hafðir þú einnig efni á því eftir niðurskurð. Ef þú hafðir efni á skíðaferð í Ölpunum fyrir breytingu, þá hafðir þú það einnig eftir breytingu.

Myntbreyting er ekki gamanmál.

Flýtum okkur hægt.


Vaknað úr dvala

Síða þessi hefur legið í dvala um langt skeið. Reyndar má segja að hún hafi aldrei komist almennilega í gang. Annars staðar sting ég öðrum hverju penna niður fyrir mína fjölskyldu og vini og því má spyrja af hverju ég setti þessa síðu í gang á sínum tíma. Ég veit það eiginlega ekki. Líklega einhver múgsefjun, því enginn virtist maður með mönnum nema blogga á Mogganum. Svona svipað og að enginn var maður með mönnum nema eiga hlutabréf. Ég var því hálfgerður ræfill. Átti engin hlutabréf og virkilega slælegur í moggablogginu.

Nú finn ég einhverja þörf fyrir að endurvekja þessa síðu. Þá helst til að tala um málefni líðandi stundar á Íslandi. Ég sit fjarri Fróni. Hinum megin á hnettinum í orðsins fyllstu merkingu. Kannski sé ég hlutina í öðru ljósi en þeir sem sitja heima. Veit það ekki. En víst er að ég er forviða á því sem gerst hefur heima undanfarnar vikur. Kannski gengur mér betur að skilja málin ef ég skrifa hugrenningarnar á blað. Ef einhver annar rekst hér inn og hefur gaman af, þá er það fínt. En skiptir í sjálfu sér ekki máli.


Namibískir fornbílar

Ford 1928Bílafloti þeirra Namibíumanna er nokkuð öðrum vísi en okkar Íslendinga. Hér þykir ekki tiltökumál að eiga tíu ára gamlan bíl eða jafnvel 20 ára. Í miklum metum hér eru fólksvagnar, sér í lagi gömlu, góðu bjöllurnar. Þær eru hér í þvílíku magni að ég hef hvergi nokkurs staðar séð svona margar á einum stað. Windhoekborg á áreiðanlega heimsmet í bjöllueign, a.m.k. miðað við höfðatölu.

En menn halda upp á ýmsa aðra gamla bíla. Í dag var haldin fornbílasýning hér í Windhoek og kíkti ég þangað. Þar gaf aldeilis að sjá. Heilmikið er af flottum, gömlum amerískum bílum. Allir með stýrið hægra megin. Gamli sjevíinn er í miklu uppáhaldi og er mikið af þeim, hvort sem eru fólksbílar eða pallbílar frá sjötta áratugnum.

Rolls 1934Elsti bílinn sem ég sá var Ford pallbíll 1928 árgerð. Öll innrétting úr timbri, meira að segja gólfið minnti á gamlan bjálkakofa. En flottur var hann.

Þarna var líka forláta Rolls frá 1934. Vakti sá mikla athygli og margir tóku myndir af honum. Greinilega er vel hugsað um hann.

Namibíumenn af þýskum ættum eru greinilega þeir sem mest bralla í svona. Heilmikið var af þýskum bílum, meira að segja voru þarna tveir Trabant bílar. Langt er síðan ég hef séð svoleiðis gripi. Skilst mér að fyrir einhverju síðan hafi verið þrír Trabantar fluttir inn til Namibíu sem gjöf til bílaáhugamanns, sem nú er látinn. Einn virðist hafa glatast, en tveir eru enn eftir.

BMWNokkrir pínulitlir evrópskir bílar voru þarna, t.d. fíat. Einna skemmtilegastur þótti mér hins vegar þriggja hjóla BMW, einnar hurðar. Hraðamælirinn sýndi 50 mílur sem hámarkshraða. Gæfi ég ekki mikið fyrir að keyra hann á þjóðvegum Namibíu, þar sem BMWar dagsins í dag þjóta á 140-220 km hraða.

Gaman var að sjá þessa bíla og hversu mikill áhugi virðist vera fyrir því að halda þessum bílum í góðu ástandi. 


Namibísk kjarabarátta

Les í blöðunum hér úti að öryggisverðir stefna á verkfall næsta föstudag. Ef einhver ræðst inn til mín og öryggiskerfið fer í gang, þá reikna ég með að þessir verðir komin innan nokkura mínútna og fórni sér fyrir mig.

Verkfallið átti reyndar að byrja um miðjan síðasta mánuð, en verkalýðsforingjarnir gleymdu að skv. lögum á sáttasemjari að fá tækifæri til að höggva á hnútinn áður en verkfall hefst. Þetta mundist á elleftu stundu.

Kjarabaráttan hér snýst fyrst og fremst um laun. Öryggisverðirnir vilja fá 67% hækkun á tímakaupið sitt. Slatta hækkun ekki satt?

Þar til maður kíkir á upphæðirnar. Þeir vilja fá hækkun á tímakaupi úr 2,09 namibíudölum í 3,50 namibíudali. Ef umreiknað í okkar ylhýru krónur þá er tímakaupið núna 18 krónur og 81 eyrir og krafan hljóðar upp á 31 krónu og fimmtíu aura. Hver vakt er 12 tímar, svo í dag fá öryggisverðir í Namibíu rétt innan við 226 krónur á dag. Þeir vinna líklega sex daga vikunnar, þ.a. mánaðarlaunin eru rúmar 5.400 krónur.

Úff, og þetta er fólkið sem ég geri ráð fyrir að muni leggja líf og limi í hættu fyrir mig ef brotist er inn til mín.

Kannski ég fari að fjárfesta í varðhundi. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband