Tekjulindin makríll

Í núverandi árferði eru fáir ljósir punktar í atvinnulífi landsmanna. Þó eru undantekningar t.d. veiðar á makríl. Við Íslendingar höfum haft takmarkaðan aðgang að þeim fiskistofni, en á þessu ári setti sjávarútvegsráðuneytið 112.000 lestir sem hámarksaflaviðmið. Góðar fréttir, enda seljast afurðirnar til útlanda og afla okkur dýrmæts gjaldeyris.

Jú, góðar fréttir, en miklu betri gætu þær þó verið. Skv. lítilli frétt á Vísi.is 10. júlí sl. mætti meira en tvöfalda verðmæti makrílsaflans. Haft er eftir norskum og færeyskum heimildum að makríll sem veiddur er til bræðslu seljist fyrir 70 milljónir króna hverjar þúsund lestir úr sjó. Sama magn af makríl úr sjó til manneldis selst hins vegar á 150 milljónir króna. Ég hef engar ástæður til að rengja þessar tölur og ímynda mér að þær séu a.m.k. nærri lagi. Gefum okkur að þær séu réttar.

Sjálfsagt er óraunhæft að reikna með að allur makrílaflinn nýtist til manneldis. Til að hafa vaðið fyrir neðan mig, geri ég ráð fyrir að hægt sé að nýta um tvo-þriðju hluta til þess brúks. Segjum 75.000 lestir. Fyrir þau fengjust þá 11 milljarðar og einum fjórðungi betur. Fyrir þær 37.000 lestir sem eftir standa og fara í bræðslu fengist ríflega tveir og hálfur milljarður. Samtals 13 og þrír-fjórðu milljarðar. Ef, hins vegar, öllum aflanum er landað til bræðslu þá fást einungis 7,8 milljarðar. Þjóðarbúið tapar greinilega töluverðum gjaldeyristekjum. Ekki undir sex milljörðum króna. Sex milljarðar! Ja-hérna, eitthvað mætti gera fyrir þann pening.

Hvernig má þetta vera? Hvernig getum við sóað verðmætum á þennan hátt? Væri ekki ágætt ef hægt væri að ná nokkrum af þessum töpuðu milljörðum í ríkiskassann? Ætli öllum landmönnum þætti ekki gott ef það væri hægt?

En kíkjum fyrst á ástæður sóunarinnar. Sjávarútvegsráðuneytið veitti útgerðum leyfi til makrílveiða og setti hámarksaflaviðmið 112 þúsund lestir. Sáralítil veiðireynsla er til staðar og því var engum kvótum úthlutað. Lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands kveða nefnilega á um að miða eigi við veiðireynslu þegar kvótum er úthlutað. Bestu þrjú veiðitímabil af síðustu sex. Þar sem veiðireynslan er metin of lítil til úthlutunar, þá var öllum gefinn laus taumurinn.

Við Háskóla Íslands er kennt námskeið sem nefnist fiskihagfræði. Sjálfsagt eru mismunandi skoðanir á þeirri fræðigrein. Ég er þó handviss um að ef ráðuneytið hefði leitað ráða hjá nemendum sem hafa lokið þessu námskeiði, þá hefði því verið sagt að hver útgerð myndi setja allt á fullt til að veiða meira en aðrar útgerðir. Nákvæmlega eins og gerðist. Ástæðan er auðvitað að safna sér meiri veiðireynslu en aðrir og þar með fá sem mestan kvóta loksins þegar honum verður úthlutað. Þessi hegðun er ekki séríslensk að neinu leyti. Mörg dæmi eru um hana frá flestum heimshlutum en þetta er angi af hinum svonefnda sameignarvanda. Sá vandi kemur iðulega fram þegar auðlind er í sameign margra, en þá sér enginn einstaklingur hag í að takmarka sókn sína í auðlindina þótt öllum kæmi betur ef menn héldu aftur af sér.

Um þessar mundir er leitað allra leiða til að spara í ríkisrekstri og finna nýjar tekjulindir fyrir hið opinbera. Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að afla töluverðra tekna af makrílveiðunum. Ein einföld aðferð sem hægt er að nota er að bjóða upp makrílkvóta. Einfaldlega leyfa útgerðum að gera tilboð í kvóta. Þeir sem bjóða best fá að veiða. Útgerðir reyndu þá að fá sem mest fyrir kvótann sinn og við sæjum allt aðra hegðun á makrílmiðunum. Útgerðir gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að fá sem mestar tekjur, gjaldeyristekjur, fyrir aflann sinn. Kostnaði yrði haldið niðri sem frekast væri unnt. Hærri tekjur, lægri kostnaður og þar með meiri hagnaður. Ef tölur þær sem nefndar voru í upphafi greinarinnar eru eitthvað nálægt því að vera réttar, þá er augljóst að mikið svigrúm er til að auka tekjur af veiðunum. Allir ættu að vera ánægðir. Stjórnvöld hafa nýja tekjulind og útgerðir auka hagnað. Auðvitað þarf að útfæra hvernig uppboðið skal fara fram. T.d. þætti líklega eðlilegt að setja hámark á kvótahlutfall einstakrar útgerðar. Útfærslan er auðvitað einungis framkvæmdaratriði og ætti ekki að skapa vandamál. Nóg er af uppboðum, sem læra má af, á alls konar hlutum um allan heim á hverjum einasta degi.

Líklega þyrfti lagabreytingu til að ná þessu fram. Það ætti ekki að vefjast fyrir Alþingi. Sérstök lög voru sett um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, þar sem fyrsta grein tiltekur að kvótaúthlutunarákvæði áðurnefndra laga um veiðar utan lögsögu Íslands gildi ekki í þeim veiðum. Sama má gera um makrílveiðar.

Á þessum síðustu og verstu tímum er hreint glapræði og vítavert gáleysi að nýta ekki allar mögulegar tekjulindir, sér í lagi þegar ný tekjulind leiðir til hærri tekna öllum til handa.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu, sunnudaginn 13. september 2009 á bls. 37)


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband