21.6.2009
Framkvæmd fylgir frami og gæfa
Hvernig má skapa atvinnu? Hvernig ætlar núverandi ríkisstjórn að skapa þau 6.000 ársverk sem stefnt er að í ríkisstjórnarsáttmálanum? Hvernig komum við hinum títtnefndu hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik? Oft er fátt um svör er stórt er spurt, og virðist sú vera raunin þessa dagana. Einsýnt er að hjólin margfrægu eiga mjög erfitt með að komast af stað af sjálfsdáðum. Rafgeymirinn virðist hreinlega tómur og því þarf að gefa start. En hvernig gefum við hagkerfi start? Tvennt geta stjórnvöld gert. Tvennt sem stjórnvöld virðast ekki ætla að gera. Í það minnsta draga menn lappirnar.
Annars vegar þarf peninga inn í bankakerfið. Lánsfé þarf að vera til staðar til að koma fyrirtækjum yfir þann erfiða hjalla sem staðið er frammi fyrir. Í fjármálakrísum er peningainnspýting iðulega sú uppskrift sem beitt er. Ekki svo mjög gamalt dæmi er frá frændum vorum Svíum. Þegar kreppti að hjá þeim við upphaf tíunda áratugarins og bankar þar í landi höktu, þá komu stjórnvöld til hjálpar. Lögðu þau peninga inn í bankana gegn eignaraðild. Hversu mikla peninga var um að ræða? U.þ.b. 4% af landsframleiðslu Svíþjóðar á þeim tíma. Jafngildir tæplega 59 milljörðum króna íslenskra, miðað við okkar landsframleiðslu í fyrra. Ríkisvaldið hér hefur tekið alla banka yfir sem máli skipta. Eitthvað virðist hins vegar fara lítið fyrir endurfjármögnun þeirra og greinilegt að nýju bankarnir hafa ekki tök á því að stunda þau lánaviðskipti sem nauðsynleg eru. Stjórnvöld verða að setja peninga inn í bankakerfið.
Hins vegar þarf ríkið að verða framkvæmdaglaðara en í stefnir. Nú er nauðsyn. Ríkið má ekki hætta við framkvæmdir, heldur ætti auka þær. Eitt sinn fyrir mörgum árum vann ég sumarlangt með manni sem hóf sinn starfsferil á þriðja áratug síðustu aldar. Lýsti hann fyrir mér atvinnuástandinu þá. Hvernig menn stóðu í röðum þar sem einhverja vinnu var að fá. Óskuðu þeir þess að einhver myndi ekki mæta þann daginn þ.a. þeir kæmust að í staðinn. Jafnvel að einhver slasaðist. Mér þóttu þetta ótrúlegar lýsingar. Hvernig leystist atvinnuleysið? spurði ég. Herinn kom, var svarið. Með hernum fylgdu jú alls konar framkvæmir og fullt af störfum. Herinn þurfti margvíslegar vörur og þjónustu og atvinnulífið fór allt í einu að blómstra Atvinnuleysi hvarf og peningahirslur landsmanna fylltust. Reyndar var það svo að seinni heimstyrjöldin átti stóran þátt í að koma böndum á kreppuna miklu. Ekki ætla ég nú að mæla með því að Íslendingar fari í hernað. En, krepputímar eru ekki rétti tíminn til að draga skyndilega úr öllum framkvæmdum.
Hærri skattar og mikill samdráttur í ríkisútgjöldum draga úr framleiðslu og atvinnu. Þetta er svo augljóst að ég skammast mín næstum fyrir að skrifa það. Þessar aðgerðir, eins og núverandi ríkisstjórn ætlar að takast á hendur, dýpka kreppuna. Þær hjálpa ekki til. Ástandið verður verra en það er í dag. Af hverju stefna stjórnvöld að því að ná hallalausum ríkisbúskap árið 2013? Auðvitað er göfug hugsun að vilja ekki eyða um efni fram, en miðað við aðstæður er þetta svolítið eins og að kaupa kampavínið til að halda upp á Íslandsmeistaratitilinn þegar æfingatímibilið er að hefjast og allt mótið er eftir. Komum fyrst hjólunum af stað, náum okkur upp úr kreppunni og förum svo að vinna í að jafna út ríkisfjármálin. En verðum við ekki þá stórskuldug? Jú, vafalaust. En þannig er nú líf okkar flestra. Við tökum okkur lán fyrir húsnæði og eyðum ævinni í að borga af því láni. Í kreppu gengur ekki að pakka í vörn. Við verðum að sækja fram völlinn.
Því, framkvæmd fylgir frami og gæfa.
(Greinin birtist í Morgunblaðinu, sunnudaginn 21. júní 2009 á bls. 32)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.