20.6.2009
Volaður verður sá ei vinna má
Í landi því er ég bý er áætlað að 36% vinnufærra manna séu án atvinnu. Líklega er þetta vanmat. Atvinnuleysi ungmenna, 15-25 ára, sem ekki eru í skóla, er áætlað yfir 60%. Hvernig lýsir þetta sér? T.d. á þann hátt að mikið af fólki er ávallt á stefnulausri göngu um götur borga og bæja. Sest er á krárnar snemma dags og setið þar fram á kvöld. Börn flækjast um eftirlitslaus, og mörg hver mæta ekki í skóla. Meira en helmingur fjölskyldna er án föður. Vonleysi margra er algjört og leiðast þeir út í glæpastarfsemi. Í fangelsi færðu nefnilega mat og húsaskjól. Mikið atvinnuleysi grefur undan samfélagslegum gildum, því fólk sér ekki tilgang með nokkrum sköpuðum hlut. Stjórnvöld í landinu þar sem ég bý hafa til margra ára haft atvinnusköpun að forgangsmáli, en engu að síður er staðan svona.
Staðreyndin er nefnilega sú að störf tapast fjarska auðveldlega, en gríðarlega erfitt er að búa til ný. Störf má ekki spila með eins og peninga í fjárhættuspili. Við á Íslandi erum núna að upplifa starfatap líklega meira en nokkru sinni fyrr. Á innan við einu ári hefur fjöldi atvinnulausra áttfaldast, skv. Vinnumálastofnun. Segi og skrifa: áttfaldast! Hversu lengi verðum við að búa til ný störf í staðinn? Ábyggilega margfalt lengur en tók að tapa þeim.
Fjárhagslegir erfiðleikar vegna atvinnuleysis eru ekki aðhlátursefni. Afleiðingar tapaðra starfa eru, hins vegar, miklu meiri en fjárhagslegir. Sérstaklega þegar þvílíkur fjöldi starfa tapast sem raun ber vitni. Andlegu afleiðingarnar af langtímaatvinnuleysi eru í raun alvarlegri en fjárhagserfiðleikar. Ef lýsa á í einu orði, þá er atvinnuleysi mannskemmandi. Því ætti meginmarkmið stjórnvalda, hvar sem er í heimi, að vera að halda atvinnuleysi í lágmarki.
Atvinna verður ekki til á borðum stjórnmálamanna. Atvinna skapast í atvinnulífinu, hjá fyrirtækjum, og smitar út frá sér. Þegar eitt fyrirtæki eykur umsvif þá njóta önnur fyrirtæki góðs af og fjölga jafnvel fólki. Þannig hefst keðjuverkun.
Í dag er málum því miður þannig háttað á Íslandi að fyrirtækjum blæðir út. Starfsumhverfi þeirra er slíkt að stór hluti getur hreinlega ekki haldið áfram. Vextir þeir sem atvinnulífið stendur frammi fyrir eru til háborinnar skammar. Seðlabankinn heldur vöxtum uppi til að verja eitthvað sem enginn veit hvað er. Hvaða máli skiptir að tólf mánaða verðbólga var 11,6%? Ég endurtek: var. Það er núverandi og framtíðarverðbólga sem máli skiptir. Á ársgrundvelli er verðbólga síðustu þriggja mánaða 4%. Lítið bendir til að hún muni aukast á næstunni. Seðlabankinn tekur ekkert tillit til atvinnuástands í landinu. Í nýjustu skýrslu peningastefnunefndar er atvinnuleysi einu sinni nefnt: ...aukið atvinnuleysi [hefur] dregið úr verðbólguþrýstingi... Í maí-skýrslu sömu nefndar var ekki minnst orði á atvinnu. Líklega á þetta sinnuleysi um atvinnu rætur að rekja til aðferðafræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Því miður er eitt af einkennum þeirra landa þar sem hann kemur til aðstoðar að vextir eru keyrðir upp úr öllu valdi og atvinnuleysi eykst til muna. Mörg dæmi um það má tína til. Jú, segja sérfræðingarnir, atvinnuleysi er bara tímabundinn sársauki sem við gleymum til lengri tíma. Það grær áður en þú giftir þig, gætu þeir sagt.
En, við hin vitum að atvinnuleysi er mannskemmandi.
Seðlabanki Bandaríkjanna hefur þrjú markmið. Hámarka atvinnu, stuðla að stöðugu verðlagi og hófsömum langtímavöxtum. Hann þarf að horfa til allra þriggja markmiðanna og finna meðalveg, því iðulega stangast þau hvert á annað. Þegar alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi fyrir einhverjum árum að seðlabankinn bandaríski hefði eingöngu verðlagsmarkmið, þá sögðu Bandaríkjamenn pent nei, og héldu sínu striki. Þarna getum við lært af Bandaríkjunum.
Þótt Seðlabanki Íslands sé sjálfstæð stofnun, þá setur Alþingi lög um hann. Breytum núgildandi lögum á þann hátt að Seðlabankinn verði allra landsmanna og hafi ekki eingöngu verðlagsmarkmið, heldur stuðli einnig að hámörkun atvinnu.
Því, volaður verður sá ei vinna má.
(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 15. júní 2009 á bls. 17)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.