Namibíska gjaldmiðlaleiðin

Árið 1990 hlaut Suðvestur-Afríka sjálfstæði frá Suður Afríku og nefndist eftir það Namibía. Namibíumönnum langaði í sinn eigin gjaldmiðil. Fannst ómögulegt að nota randið, gjaldmiðil nýlendukúgaranna. Sjálfsagt langaði stjórnvöld líka í myntsláttuhagnað. En fyrst og fremst, sýnist mér, var um að ræða sjálfstæðisvitund sem krafðist eigin gjaldmiðils.

En hver tæki splunkunýjan gjaldmiðil frá splunkunýju ríki, í ofanálag afrísku ríki, alvarlega? Trúverðugleiki er orð sem við Íslendingar heyrum oft þessa dagana. Hvaða trúverðugleika hefði namibískur dalur?

Namibíumenn lögðu höfuð í bleyti og fundu lausn. Í september 1993 þá hófu þeir að prenta sinn eigin gjaldmiðil. En, ákváðu að randið yrði einnig lögeyrir í Namibíu. Þ.a. skv. lögum skiptir engu máli hvort greitt er með namibískum dölum eða s-afrískum röndum í verslunum. Fyrirtæki geta þarafleiðandi gert upp í hvorum gjaldmiðli sem er. Ég get gengið inn í bankann minn hér, tekið út 1.000 namibíska dali og beðið um að fá rönd, ef ég vil frekar en dali.

Skv. lögum er gengi namibíska dalsins fast við s-afríska randið, einn dalur á móti einu randi. Til að tryggja þetta enn frekar eru Namibíumenn meðlimir í sameiginlegu myntsvæði í sunnanverðri Afríku ásamt Lesóto, Svasílandi og S-Afríku þar sem jafngengis er krafist.

Og hvernig hefur þetta svo gengið?

Yfirleitt ágætlega. Mikil viðskipti eru milli Namibíu og S-Afríku og gengisstefnan skapar öryggi í þeim viðskiptum. Hins vegar eru hagkerfi landanna ólík að mörgu leyti. T.d. streymdu erlendir fjárfestar til S-Afríku 2004 og 2005, með mikið af bandaríkjadölum og evrum og keyptu rönd fyrir. Styrktist þar með gengi randsins og namibíski dalurinn fylgdi á eftir. Namibía fékk hins vegar sáralítið af þessari erlendu fjárfestingu. Namibísk útflutningsfyrirtæki fengu minna fyrir útflutning sinn og lentu mörg hver í vandræðum. Nú hins vegar hafa fjárfestar verið að losa sig við röndin sín og þá veikist randið og namibíski dalurinn fylgir með.

Ef á heildina er litið hefur namibíska kerfið dugað ágætlega. Namibía á sinn eigin gjaldmiðil, sem skiptir stjórnmálamenn máli. Sýnir sjálfstæði landsins. Einhver myntsláttuhagnaður fæst. Það helsta sem seðlabankinn gerir er að fylgja eftir vaxtabreytingum í S-Afríku. Hann hefur ósköp lítið svigrúm til nokkurs annars. Síðan safnar bankinn hagtölum.

Nokkur ótti er við fjármagnsflutninga úr landi. Því eru ýmsar hömlur settar á gjaldeyrisviðskipti. Reynt er að feta hinn gullna meðalveg, að lokka fjármagn til landsins sem nota á til uppbyggingar, en forðast spákaupmenn.

Hvort leið af þessu tagi gæti virkað á Íslandi skal ég ekki segja. Hins vegar er einn valkostur í núverandi stöðu að festa gengið öðrum gjaldmiðli. Nauðsynlegt er að skoða hvernig aðrar þjóðir framkvæma festingu af þessu tagi. Ef taka á upp nýjan gjaldmiðil væri óðs manns æði að gera það án þess að hafa fest krónuna við þann gjaldmiðil í einhvern tíma áður en skrefið er stigið til fulls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband