10.11.2008
Evruna strax?
Horfði á Kastljós áðan. Jú, jú, í Namibíu er hægt að horfa á Kastljós. Undur tölvutækninnar gerir það kleyft. Þarna voru Geir Zoëga og Ólafur Ísleifsson í viðtali vegna greinar sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn var. Valmöguleikar er fyrir hendi í gengismálum, nefnist greinin. Lítið mál er skv. greininni að taka upp evru einhliða. Á Vísi.is sé ég rétt í þessu að annar höfunda var í Íslandi í dag áðan og talar um að rúm vika dugi til að taka upp evruna einhliða.
Líklega er þetta rétt, tæknilega séð.
Að ýmsu þarf þó að huga. Þótt ég sé þeirrar skoðunar að krónan sé okkur fjötur um fót, þá má ekki skera á reipið svo ákaft að skerist á slagæð í leiðinni. Kapp er best með forsjá, þótt okkur Íslendingum eigi til að gleyma því. Í greininni í Fréttablaðinu er sagt að ... skipt [yrði] yfir í hina nýju mynt á föstu gengi. Fyrir almenning verður þetta fasta gengi algert lykilatriði. Hvaða fasta gengi yrði notað? Ja, það er nú ekki tekið skýrt fram, heldur segir að Fast gengi var ákveðið út frá því að það væri hagstætt framleiðslu og útflutningsgreinum.
Það var nefnilega það.
Skoðum nokkur dæmi. Skv. Seðlabanka Íslands kostaði ein evra 104 kr. í byrjun mars. Fyrri hluta ágúst þurfti að greiða 122 kr. fyrir hverja evru. Í dag, 10. nóvember, kostaði evran hins vegar 166 krónur. Verð evru í dag er því u.þ.b. 60 hundraðshlutum hærra en í mars. Ef þú ættir 30 milljónir króna í sparifé, þá gæfi gengi marsmánaðar þér 288 þúsund evrur, en gengi dagsins í dag einungis 180 þúsund evrur. Þeir sem eiga sparifé vilja að sjálfsögðu fyrri kostinn. Hins vegar ef þú skuldar 30 milljónir, þá viltu seinni kostinn. Þó ber að gæta þess að launin munu verða lægri í evrum talið ef gengi dagsins í dag er notað, þ.a. skuldarinn situr nokkurn veginn í sömu súpunni og áður.
Hvaða gengi er notað skiptir miklu máli því það hefur áhrif á kaupmátt okkar erlendis. Hægt er að fá nýjan bíl í Evrópu á 25 þúsund evrur og þá skiptir engu máli á hvaða verði Íslendingar keyptu evruna. Augaleið gefur að við myntbreytingu skiptir okkur verð evrunnar í krónum meginmáli.
Annað dæmi. Sá sem hefur í dag 250.000 kr. mánaðarlaun fengi 1.506 evrur á mánuði ef 166 krónur gefa eina evru. Ef evrunni væri hins vegar skipt fyrir 104 krónur, þá verða mánaðarlaunin 2.404 evrur. Hvort skyldi vera hagstæðara fyrir frí á Spáni?
Að breyta úr krónum í evrur er ekki eins og að skera núll af krónunni. Á þessu er grundvallarmunur. Við upphaf níunda áratugarins voru tvö núll skorin af krónunni. Hafði það engin áhrif á stöðu okkar gagnvart útlöndum. Fyrir 10 nýkrónur fékkst sami fjöldi þýskra marka og fyrir 1.000 gamlar krónur. Ef þú hafðir efni á að kaupa þér bíl í Þýskalandi fyrir núllaniðurskurð, þá hafðir þú einnig efni á því eftir niðurskurð. Ef þú hafðir efni á skíðaferð í Ölpunum fyrir breytingu, þá hafðir þú það einnig eftir breytingu.
Myntbreyting er ekki gamanmál.
Flýtum okkur hægt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.