Ábyrgð fyrirtækja og íslenskukennsla útlendinga

Fyrir nokkru ákváðu stjórnvöld að leggja meira fjármagn í íslenskukennslu fyrir útlendinga. Vonandi skilar það sér í betri og víðtækari kennslu en áður. En átak stjórnvalda dugar ekki eitt og sér.

Markmið okkar Íslendinga hlýtur að vera að allir þeir sem starfa hér á landi til lengri tíma geti bjargað sér á íslenskri tungu. Til þess þarf samstillt átak, ekki einungis stjórnvalda heldur einnig þeirra fyrirtækja sem ráða útlendinga til starfa. Í umræðunni um þessi mál heyrist oft sú gagnrýni útlendinganna að vinnuálag sé það mikið að engin lifandi leið sé að ætla sér að sækja námskeið í lok vinnudags.

Er þetta röksemd sem verður að virða og taka tillit til.

Úr þessum vanda er engin leið nema að fyrirtækin okkar taki sig á. Peningar og fögur orð stjórnvalda duga bara ekki. Til að tryggja hagsmuni þeirra útlendinga sem koma til starfa á okkar landi elds og ísa þá verður hreinlega að skikka fyrirtæki til að hleypa þeim í klukkutíma íslenskukennslu á hverjum degi fyrstu sex mánuði veru þeirra hér. Fjársektir þurfa að liggja við ef misbrestur á þessu verður.

Fyrirtæki munu kvarta yfir kostnaði og töpuðum vinnustundum, annað væri óeðlilegt. En stjórnendum þeirra verður að benda á að þeir vilja ráða fólkið og verða því að taka á sig þá ábyrgð og þær skyldur sem því fylgja.

Því miður þarf stundum að pína okkur í samstillt átak.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband